top of page

VÖRUHÖNNUN

Í grunninn vinna vöruhönnuðir að megninu til með nokkra lykilþætti sem eiga sér mismunandi birtingar­myndir eftir eðli hlutanna. Lykilhugtök eins og efni, tæki og umbreyting eru hugtök sem koma aftur og aftur fyrir í vinnu vöruhönnuða. Allur lífhringur efnis er rannsakaður til þess að vöruhönnuður sé meðvitaður um umbreytingu frá uppruna efnis til endaloka þess. Í þessu sambandi er hugtakið lífhring­ur efna rannsakaður í náttúrunni og hvernig inngrip mannskepnunnar hefur áhrif á hringrás náttúrunn­ar. Samspil efna og tækja er rannsakað til þess að starfandi vöruhönnuðir framtíðarinnar geti greint og skilið dýnamískt samspil efna og tækja til sköpunar á vörum. Farið er yfir greinarmun á iðnaðarfram­leiðslu og handverksframleiðslu og samtali þess á milli miðað við breyttar áherslur samtímans. Áhersla er lögð á dýpri skilning á áhrifum og þýðingu þess hvernig vara verður til, frekar heldur en að notagildi eitt og sér sé takmarkið. Áhersla samtímans setur því spurningarmerki við verkferla, endurskilgreinir þá og endurnýjar.

Í mótvægi við þessa raunvísindalegu nálgun er lögð mikil áhersla á dýpri rannsóknir á sértækum aðstæðum sem gefa kost á nýjum tækifærum til þróunar á vörum, þjónustu eða kerfum, þar sem snertifletir varpa upp spurningum um félagsfræði­leg og hagfræðileg áhrif. Sem dæmi má nefna námskeiðin Stefnumót við bændur og Staðbundin framleiðsla sem byggja að stórum hluta á rann­sóknarvinnu á sértæku samhengi þróunar afurða og framleiðsluferla.

Æskilegt er að umsækjendur hafi sótt undirbúningsnám frá hönnunar- eða myndlistardeildum framhaldsskólanna, en þó er slíkt ekki skilyrði.

Hægt að læra við Listaháskóla Íslands.

3 ár til BA-prófs.

bottom of page