top of page

DJÁKNANÁM

Djáknanám er starfsréttindanám sem miðar að því að mennta djákna og gera þá í stakk búna til að gegna líknar- og fræðslustörfum í samvinnu við sóknarpresta. Einnig geta þeir starfað á einstökum stofnunum, s.s. á sjúkrahúsum. Djáknaembættið er sérstakt embætti innan kirkjunnar og eru djáknar því vígðir af biskupi.

FÉLAGSFRÆÐI

Í félagsfræði eru stundaðar kerfisbundnar rannsóknir á þjóðfélaginu, sérstaklega nútíma þjóðfélagi. Félagsfræðingar rannsaka skipulag, stofnanir og þróun þjóðfélagsins, með áherslu á að greina orsakir breytinga milli einstaklinga og hópa. Meðal viðfangsefna félagsfræðinnar má nefna velferðarmál, afbrot, atvinnu- og efnahagslíf, fjölmiðla, stöðu kynjanna, innflytjendamál og mannfjöldaþróun.

FÉLAGSRÁÐGJÖF

Í BA námi öðlast nemendur undirstöðuþekkingu á starfsvettvangi, kenningum, starfsaðferðum félagsráðgjafar og þjálfun í aðferðafræði félagsvísinda. Nemendur öðlast einnig þekkingu á félagslegum vandamálum og afleiðingum þeirra, úrræðum velferðarkerfisins og löggjöf á ýmsum sviðum. 

FÉLAGSVÍSINDI

Nám í félagsvísindum er byggt á grundvelli félagsfræði, mannfræði og stjórnmálafræði. Markmiðið er að opna augu nemenda fyrir eðli hópa, stofnana og samfélaga. Hverjar eru forsendur samstöðu og átaka og hvað veldur samfélagsbreytingum?

FJÖLMIÐLAFRÆÐI

Fjölmiðlafræðinámið í Háskólanum á Akureyri byggir á fræðilegri þekkingu. Þú færð þjálfun í að skrifa texta og vinnu við útvarp, sjónvarp og samfélagsmiðla.
Það er lögð áhersla á að kenna þér að setja fjölmiðla í samhengi við samfélagið. Leitað er svara við lagalegum og siðferðislegum spurningum sem tengjast daglegu starfi fjölmiðlafólks.
Þessi fræðigrein er í stöðugri þróun og nýir miðlar að verða til. Námið tekur tillit til þessa.

GRUNNSKÓLAKENNARAFRÆÐI

Allir grunnskólakennaranemar taka námskeið í íslensku, stærðfræði og nokkrum öðrum kennslugreinum grunnskólans og sérhæfa sig í einni þeirra. Í náminu er grunnur lagður að þekkingu á kennsluháttum og hugmyndum manna um nám. Áhersla er lögð á að hver kennaranemi geti mótað námið eftir áhugasviði sínu og valið sér leiðir til sérhæfingar.

 

GUÐFRÆÐI

Aðalviðfangsefni guðfræðinámsins er að skoða rætur kristnidómsins í gyðinglegri hefð og sögulega þróun hans, allt frá tímum Nýja testamentisins til samtíðar okkar. Einnig er viðfangsefni guðfræðinnar að skoða samspil nútímasamfélagsins og kirkju nútímans.

HHS (HEIMSPEKI, HAGFRÆÐI OG STJÓRNMÁLAFRÆÐI)

HHS er nám sem hefur að markmiði að búa nemendur undir framhaldsnám og þátttöku á atvinnumarkaði jafnt innlanlands sem á alþjóðlegum vettvangi. Í því fléttast saman þrjár grunngreinar hug- og félagsvísinda sem jafnan eru kenndar hver í sínu lagi. Með því að nýta aðferðir og innsýn þessara þriggja greina saman, verður til óvenjulegt og innihaldsríkt grunnnám sem gerir nemendum mögulegt að skilja hvernig ólík sjónarhorn fræðanna geta unnið saman.

HEIMSPEKI

Heimspekin leitar skilnings á samhengi hlutanna í víðustu merkingu. Hún leitast við að greina hugtök og rök, túlka og skýra margvísleg álitamál, grundvallarspurningar og forsendur. Hún beitir fyrst og fremst rökræðunni til að varpa ljósi á þau vandamál sem tekist er á um.  Meginsvið heimspekinnar eru jafnan talin fjögur – frumspeki, sem fjallar um eðli veruleikans og hlutanna í heiminum, siðfræði, sem fjallar um grundvöll siðlegrar breytni, þekkingarfræði, sem fjallar um það hvað það er að vita, og rökfræði, sem fjallar um reglur og lögmál hugsunarinnar. Heimspekin skiptist í fjölmargar undirgreinar, svo sem heimspekisögu, stjórnmálaheimspeki, fagurfræði, trúarheimspeki, vísindaheimspeki, málspeki, hugspeki, feminíska heimspeki og svo mætti lengi telja.

ÍÞRÓTTAKENNARAFRÆÐI

Markmið námsins er að veita nemendum alhliða innsýn í kennarafræði.
Nám til BEd-prófs veitir ekki sérstök starfsréttindi en það er mikilvægur undirbúningur fyrir frekara nám til kennsluréttinda. Menntunin nýtist vel í störfum innan menntakerfisins og á almennum vinnumarkaði. Nemendur á íþróttakjörsviði taka aðallega vettvangstengd námskeið á þriðja námsári.

ÍÞRÓTTA- OG HEILSUFRÆÐI

Hefur þú áhuga á íþróttum, góðri heilsu, útiveru og vilt starfa á þeim vettvangi? Þá er nám í íþrótta- og heilsufræði eitthvað fyrir þig. Í náminu er lögð áhersla á að auka þekkingu þína á íþróttaiðkun, heilsu, vexti, þroska og lífsstíl fólks á öllum aldri. Brautskráðir nemendur starfa á fjölbreyttum vettvangi en flestir starfa sem íþróttakennarar eða þjálfarar. 

LEIKSKÓLAKENNARAFRÆÐI

Vilt þú vera með í að móta framtíðina? Leikskólinn er fyrsta skólastigið í menntakerfinu og þar er lagður hornsteinn að menntun barna. Sjónarmið og réttindi barna eru í brennidepli um leið og þau eru búin undir virka þátttöku í lýðræðissamfélagi. Í leikskólum er unnið með börnum að grunnþáttum menntunar eins og þeir birtast í aðalnámskrá leikskóla og þeim þannig sköpuð tækifæri til náms og þroska.

LÖGFRÆÐI

Í Lagadeild er spennandi og skemmtilegt umhverfi fyrir nemendur og kennara. Kennslan er nútímaleg og fjölbreytt og tekur mið af því besta sem gerist. Lögð er rík áhersla á gagnvirka kennsluhætti þar sem máttur virkrar samræðu milli kennara og nemanda er nýttur til hins ýtrasta.

Skoða nánar

LÖGREGLUFRÆÐI

Í náminu færðu þjálfun í samskiptum við ólíka hópa samfélagsins. Þú lærir samskipti við aðrar fagstéttir til dæmis í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Rauði þráðurinn er að læra að tryggja öryggi borgaranna og vinna gegn afbrotum.
Kennd er sálfræði, lögfræði, afbrotafræði og fleiri greinar sem gagnast þér í daglegum löggæslustörfum. Einnig raunprófaðar aðferðir og tækni sem lögreglan beitir

LÖGREGLU- OG LÖGGÆSLUFRÆÐI

Lögreglu- og löggæslufræði er hagnýt fræðigrein sem fjallar um viðfangsefni löggæslu í víðu samhengi. Nám í lögreglufræði miðar að því að veita nemendum haldgóða undirstöðufærni og þekkingu í lögreglufræði.
Námið er fjölbreytt og góður undirbúningur fyrir störf hjá hinu opinbera sem og hjá einkafyrirtækjum sem sérhæfa sig í að tryggja öryggi borgaranna.
Nemendur njóta góðs af sérþekkingu kennara og sérhæfðri reynslu þeirra af löggæslustörfum.

MANNFRÆÐI

Mannfræðin rannsakar allt sem viðkemur tegundinni Homo sapiens. Spurningar mannfræðinga snúast einkum um hin mörgu og ólíku samfélög manna. Áhersla er lögð á að skilja hugmyndir og athafnir fólks og hvaða merkingu þær hafa. Mannfræðin rannsakar ólík viðfangsefni svo sem þjóðerni í samtímanum, barnæsku, listir, fólksflutninga, þróunarsöguna, tengsl við umhverfið, þéttbýlismyndun og áhrifamátt miðla.

NÚTÍMAFRÆÐI

Í nútímafræði er lögð er áhersla á að efla þroska, víðsýni og miðlun efnis í ræðu og riti. Námið er blanda af heimspeki, siðfræði, sagnfræði, samfélagsgreinum og íslensku. Dregin er upp mynd af samfélaginu og þeim þáttum sem hafa áhrif á það og ýmsum álitamálum velt upp. Þú færð þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum. Þar er meðal annars lögð áhersla á gagnrýna hugsun.

SAGNFRÆÐI

Sagnfræði er fræðigreinin um mannleg samfélög og einstaklinga, um stjórnkerfi þeirra og stjórnmál, frelsi og ófrelsi, atvinnuvegi og efnahagslíf, hvers konar lifnaðarhætti og menningu í víðasta skilningi. Í sagnfræði eru samfélög könnuð eins langt aftur í tíma og heimildir leyfa og oft skoðuð í löngum tímasniðum.

SÁLFRÆÐI

Í BS-náminu er lögð áhersla á aðferðir vísindanna og gagnrýna hugsun. Drjúgur hluti námsins eru námskeið þar sem undirgreinar sálfræðinnar eru kynntar, s.s. þroskasálfræði, félagsleg sálfræði, persónuleikasálfræði, skynjunarsálfræði, klínísk sálfræði, hugfræði, atferlisgreining og lífeðlisleg sálfræði. Skilningur á rannsóknum og kenningum í sálfræði er efldur sérstaklega í námskeiðum um aðferðafræði rannsókna, tölfræði, mælinga- og próffræði og í námskeiðum um sögu og eðli sálfræðinnar. Í valnámskeiðum er gjarnan fjallað um hagnýtar undirgreinar á borð við vinnusálfræði, íþróttasálfræði, klíníska barnasálfræði, heilsusálfræði, réttarsálfræði og öldrunarsálfræði. Einnig geta nemendur í sálfræði tekið valnámskeið í öðrum deildum háskólans.

STJÓRNMÁLAFRÆÐI

Stjórnmálafræði er krefjandi nám, en jafnframt skemmtilegt og fjölbreytt. Nám í stjórnmálafræði miðar að því að veita nemendum haldgóða menntun um stjórnmál í sem víðustum skilningi. Í BA-námi í stjórnmálafræði er lögð jöfn áhersla á íslensk stjórnmál, samanburð við önnur ríki og alþjóðastjórnmál.

TÓMSTUNDA- OG FÉLAGSMÁLAFRÆÐI

Tómstundastarf gegnir mikilvægu menningar- og uppeldishlutverki í nútímasamfélagi. Í tómstunda- og félagsmálafræði er fjallað um gildi, þýðingu og hlutverk tómstunda- og félagsmálastarfs fyrir fólk á öllum aldri. Sérfræðiþekking tómstunda- og félagsmálafræðinga felst m.a. í að leiða saman hópa, stuðla að félagslegum þroska og hæfni með fjölbreyttum viðfangsefnum.

ÞROSKAÞJÁLFAFRÆÐI

Vilt þú stuðla að jöfnum réttindum og sjálfstæði lífi fatlaðs fólks? Þroskaþjálfar starfa í öllum sviðum mannlífsins með það að leiðarljósi að styðja og efla samfélagslega þátttöku fatlaðs fólk og gæta hagsmuna þess. Mannréttindi og mannréttindabarátta er kjölfestan í störfum þeirra sem og fjölbreytilegar leiðir við að aðstoða og efla sjálfsstætt líf fatlaðs fólk í samfélagi fyrir alla.

UPPELDIS- OG MENNTUNARFRÆÐI

Í uppeldis- og menntunarfræði er fengist við spurningar sem tengjast þroska og uppeldi barna og unglinga, samskiptum fólks, sjálfsmyndum einstaklinga og hópa, fjölskyldum, skólum, kynferði og kyngervi, menningarlegum margbreytileika, menntun og starfsframa og þróun skólakerfa. Námið felur í sér fjölbreytta grunnmenntun sem undirbýr fólk til starfa á fjölmörgum sviðum uppeldis-, félags- og tómstundamála.

VIÐSKIPTALÖGFRÆÐI

Nám í viðskiptalögfræði opnar dyr að fjölbreyttum starfsmöguleikum. Útskrifaðir nemendur frá Bifröst reka m.a. eigin lögmannstofur, starfa á alþjóðavettvangi, t.d. hjá EFTA, í bönkum eða hjá hinum ýmsu ráðuneytum. Lögð er rík áhersla á hagnýta tengingu námsins, á starfsþjálfun nemenda og kjósa margir nemendur að fara í starfsnám sem tengist áhugasviði þeirra í námi.

ÞJÓÐFRÆÐI

Þjóðfræðin rannsakar hversdagsmenningu, lífshætti og lífssýn á okkar dögum og áður fyrr. Þjóðfræði heyrir í senn til hug- og félagsvísinda, enda fjalla þjóðfræðingar jöfnum höndum um aðstæður fólks og samfélag á hverjum tíma og svo tjáningu þess, listfengi og fagurfræði hversdagsins. Á meðal viðfangsefna þjóðfræðinnar eru sögur og sagnir, heimilis- og atvinnuhættir, trú og tónlist, siðir og venjur, hátíðir og leikir, klæðnaður og matarhættir, svo fátt eitt sé nefnt. Áhersla er lögð á hvernig fólk mótar líf sitt og umhverfi undir kringumstæðum sem það hefur ekki mótað sjálft og hvernig fólk lifir í samfélagi hvert við annað í þeim margvíslegu hópum sem það tilheyrir.

VIÐSKIPTAFRÆÐI

BS námið byggur á sterkum grunni almennra viðskiptafræðigreina eins og fjármálafræði, markaðsfræði, reikningshaldi, rekstrarhagfræði og stjórnunarfræði. Í upphafi náms velja nemendur sér það kjörsvið sem þeir kjósa en boðið er upp á frjórar áherslulínur, fjármál, markaðsfræði og alþjóðaviðskipti, reikningshald, og stjórnun.

Hægt er að velja um mismunandi áherslur innan viðskiptafræðinnar.

  • Viðskiptafræði með áherslu á markaðssamskipti

  • Viðskiptafræði með áherslu á viðskiptagreind

  • Viðskiptafræði með áherslu á stjórnunar- og fjármálagreinar

  • Viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði

  • Viðskiptafræði með áherslu á sjávarútveg

HAGFRÆÐI

Hagfræði grundvallast á því að við búum við skort á hagrænum gæðum. Viðfangsefnið verður því hvernig við skiptum þeim gæðum meðal okkar, hvað við framleiðum og hvers við neytum og efnahagslegar afleiðingar af þessum ákvörðunum. Viðskiptafræði er sú fræðigrein sem fæst við að skoða rekstur fyrirtækja, umgjörð þeirra og innviði til að tryggja efnahagslega farsæld þeirra.

FORNLEIFAFRÆÐI

Fornleifafræði fjallar um samfélög með því að rannsaka minjar um þau. Fortíðin er meginviðfangsefni fornleifafræðinnar en í vaxandi mæli er aðferðum hennar einnig beitt til að greina samfélög nútímans. Söguleg fornleifafræði fjallar um þau tímabil sem ritheimildir eru einnig til um en forsöguleg fornleifafræði fjallar um þá tíma sem fornleifar einar eru til frásagnar um.

NÁMSLEIÐIR

Open Notebook

FÉLAGSGREINABRAUT

bottom of page