top of page

ARKÍTEKTÚR

Námið við LHÍ spannar fyrsta hluta hefðbundins náms til starfsréttinda arkitekta með BA-gráðu í arkitektúr. Listaháskólinn leitast við að búa nemendur sína vel til áframhaldandi náms og að lokum til farsæls starfs í mótunarferli samfélagsins og umhverfi þess. Mikil áhersla er lögð á fagleg gæði kennslunnar, að nemendur fái traustan grunn með fjölbreyttum verkefnum í þeim fjölbreytilega skala sem arkitektúr teygir sig yfir

FATAHÖNNUN

Þekking og skilningur á gæðum í fatnaði er nauðsynleg undirstaða farsæls starfsferils í fatahönnun og aukin sjálfbærni í greininni er lykilorð þegar litið er til framtíðar.
Í þessu samhengi er lögð áhersla á fræðslu um uppruna og áhrif textíls og framleiðslu fatnaðar á umhverfi og líf okkar allra á jörðinni. Markmið brautarinnar er að skapa hönnuði sem hafa ábyrga framtíðarsýn gagnvart náttúrunni í heild sinni og sem sýna einstaklingum og samfélögum heimsins virðingu í störfum sínum.

GRAFÍSK HÖNNUN

Grafískir hönnuðir miðla upplýsingum, texta, myndum og hverskyns innihaldi með það að markmiði að hámarka skilning. Við Listaháskóla Íslands hefur kennsla grafískrar hönnunar miðað að því að efla fagið ásamt því að hvetja nemendur til þess að láta sig umhverfið og samfélagið varða – og horfa til framtíðar. Nemendur sækja þá í hverskyns sögulegan arf. Þeir kynnast fjölbreyttum miðlunarleiðum og þeim ráðlagt að vera meðvitaðir um það samhengi sem þeir starfa innan. Nemendur eiga þá einnig að temja sér skapandi hugsun og skilning á viðfangsefni sínu frekar en að festa sig í tæknilegum takmörkunum eða hefðum.

HLJÓÐFÆRALEIKUR

Markmið deildarinnar er að mennta fjölhæfa tónlistarmenn með góða þekkingu, leikni og hæfni í sínu fagi. Að loknu námi skal nemandinn hafa tileinkað sér víðtæka þekkingu og skilning á tækni, aðferðum og stíltegundum í tónlist, flutningi hennar og túlkun. Hann hefur öðlast víðtæka reynslu í einleik og ýmiss konar samspili. Nemandinn skal hafa innsæi til að nálgast viðfangsefni greinarinnar á einstaklingsbundinn hátt.

KIRKJUTÓNLIST

Nemendur með sérhæfingu í kirkjutónlist ljúka námi með BA-gráðu þar sem lokaverkefnið felur í sér lokaritgerð og opinbera tónleika.
Námið er í stórum dráttum tvískipt þar sem annar hluti námsins samanstendur af sérhæfingu nemandans í kirkjutónlist og hinn hlutinn er sameiginlegur kjarni fræðigreina. Samspil í mismunandi stórum hópum er ríkur þáttur í starfi deildarinnar. Auk þess að taka þátt í skipulegum samspilshópum deildarinnar eru nemendur hvattir til að vinna sjálfstætt í smærri og stærri hópum, jafnvel með öðrum listamönnum.

KLASSÍSK SÖNG-/HLJÓÐFÆRAKENNSLA

Áhersla er lögð á fjölþætta þjálfun í hljóðfæraleik en auk þess er áhersla lögð á kennslufræðitengdar greinar og önnur fræði. Markmiðið er að við lok námsins búi nemendur yfir góðri færni á hljóðfæri sitt auk hagnýtrar þekkingar sem nýtist þeim við kennslu barna og unglinga í fjölbreyttu samfélagi. Meðal sértækra námsgreina má nefna kennslufræði, sálfræði, miðlun og þætti tengda samspili og spuna og margt fleira.

KVIKMYNDAFRÆÐI

Í kvikmyndafræði er lögð áhersla á að skoða kvikmyndamiðilinn í sem víðustu samhengi og teknar eru til sýninga tilrauna- og heimildamyndir, ekki síður en leiknar frásagnarmyndir, og þær greindar í ljósi fjölbreyttra fræðikenninga.

LEIKARABRAUT

Markmið leikarabrautar er að útskrifa víðsýna og skapandi listamenn, sem búa yfir þeirri tækni og þekkingu, sem sviðslistaumhverfi nútímans kallar á. Lögð er áhersla á að vekja með nemandanum forvitni og áræðni, til að takast á við hin margvíslegu viðfangsefni námsins. Mikið er lagt uppúr því að nemandinn tileinki sér sjálfstæði, sjálfsaga og fagmennsku, hann geti unnið jafnt einn á báti, sem og í hóp, hann ögri sjálfum sér til að hugsa út fyrir ramman en hafi jafnframt fullt vald á þeirri leiktækni, sem lögð er til grundvallar í náminu.

LISTFRÆÐI

Nám í listfræði veitir þekkingu í sögu myndlistar og sjónrænnar menningar og þjálfun í að skilja, greina og túlka myndlistarverk og annað sjónrænt efni frá ólíkum tímum og í mismunandi þjóðfélögum. Sérstök áhersla er lögð á íslenska myndlistarsögu í náminu.
Þá veitir listfræði einnig þjálfun í listheimspeki/fagurfræði, safnafræði, sýningargerð og listgagnrýni.

MYNDLIST

Á BA stigi býður myndlistardeild upp á kennslu í hinum fjölbreyttu aðferðum samtíma listsköpunar, tækni og handverki auk listfræða listfræða í því markmiði  að hvetja nemendur til gagnrýninnar og skapandi hugsunar sem skilar sér með markvissri framsetningu á sjálfstæðum myndverkum.
Á námstímanum geta nemendur valið um sérhæfingu innan helstu miðla og aðferða myndlistar, svo sem skúlptúrs, málunar, prents, innsetninga, ljósmyndunar, vídeós, hljóðs eða gjörninga. Engar miðlatengdar brautir eru við deildina heldur er áhersla lögð á að nemendur kanni sjálfir fjölbreytilega möguleika til listsköpunar, hvort sem er í tvívíðum eða þrívíðum miðlum, og öðlist færni í verklegri framkvæmd jafnt sem fræðilegri hugsun.

SKAPANDI TÓNLISTARMIÐLUN

Nám í skapandi tónlistarmiðlun byggist á þjálfun í hljóðfæraleik og/eða söng, bæði með hryntónlist og sígilda og samtímatónlist sem viðfangsefni. Þjálfunin nýtist þeim sem hafa fjölþætta hæfileika og áhuga og reynslu til miðlunar og sköpunar á hvers konar hátt. Einnig eru dæmi um nemendur á brautinni sem hafa menntast í tónsmíðum, hljómsveitar- eða kórstjórn. Þá eru samleikur, samsöngur, tónsköpun í hóp og skapandi tónlistarsmiðjur, sem byggja á samvinnu við skóla og aðrar stofnanir, stór þáttur í náminu, ásamt almennum kjarna fræðigreina sem nemendur á öllum brautum taka. Lögð er áhersla á haldgóða, almenna tónlistarþekkingu með það að markmiði að búa nemandann undir að takast á við ýmis konar tónlistariðkun og miðlun í síbreytilegu samfélagi sem gerir æ fjölbreytilegri kröfur til listamanna um að virkja ólíka hópa til skapandi hugsunar; samfélagi sem kallar á nýja kynslóð öflugra tónlistarmanna sem í síauknum mæli mun starfa jöfnum höndum við tónlistarflutning, sköpun, kennslu og miðlun af ýmsu tagi.

SVIÐSHÖFUNDABRAUT

Kjarni náms á sviðshöfundabraut er þróun sviðslistamannsins sjálfs. Áherslan er á að nemendur þrói með sér listræna sýn og nálgun við miðilinn sem höfundar og verði að námi loknu sjálfstæðir skapandi sviðslistamenn. Nemendur kynnast ólíkum aðferðum, allt frá hefðbundinni leikstjórn til óhefðbundinna samsetningaraðferða, með það að markmiði að öðlast skilning og þekkingu á möguleikum miðilsins. Mikil áhersla er lögð á frumsköpun nemenda og jafnframt á að þeir þrói með sér nálgun og aðferðir við sviðsetningu og sköpun sem styrkja sýn þeirra á miðilinn.

VÖRUHÖNNUN

Í grunninn vinna vöruhönnuðir að megninu til með nokkra lykilþætti sem eiga sér mismunandi birtingar­myndir eftir eðli hlutanna. Lykilhugtök eins og efni, tæki og umbreyting eru hugtök sem koma aftur og aftur fyrir í vinnu vöruhönnuða. Allur lífhringur efnis er rannsakaður til þess að vöruhönnuður sé meðvitaður um umbreytingu frá uppruna efnis til endaloka þess. Í þessu sambandi er hugtakið lífhring­ur efna rannsakaður í náttúrunni og hvernig inngrip mannskepnunnar hefur áhrif á hringrás náttúrunn­ar. Samspil efna og tækja er rannsakað til þess að starfandi vöruhönnuðir framtíðarinnar geti greint og skilið dýnamískt samspil efna og tækja til sköpunar á vörum. Farið er yfir greinarmun á iðnaðarfram­leiðslu og handverksframleiðslu og samtali þess á milli miðað við breyttar áherslur samtímans. Áhersla er lögð á dýpri skilning á áhrifum og þýðingu þess hvernig vara verður til, frekar heldur en að notagildi eitt og sér sé takmarkið. Áhersla samtímans setur því spurningarmerki við verkferla, endurskilgreinir þá og endurnýjar.
Í mótvægi við þessa raunvísindalegu nálgun er lögð mikil áhersla á dýpri rannsóknir á sértækum aðstæðum sem gefa kost á nýjum tækifærum til þróunar á vörum, þjónustu eða kerfum, þar sem snertifletir varpa upp spurningum um félagsfræði­leg og hagfræðileg áhrif. Sem dæmi má nefna námskeiðin Stefnumót við bændur og Staðbundin framleiðsla sem byggja að stórum hluta á rann­sóknarvinnu á sértæku samhengi þróunar afurða og framleiðsluferla.

SÖNGUR

Nemendur vinna að því að ná góðu valdi á söngtækni með leiðbeinendum deildarinnar og gestakennurum. Einnig er unnið að túlkun og því að öðlast hæfni til þess að vinna á skapandi og sjálfstæðan hátt. Námið fer fram í einkatímum og í hóptímum. Áhersla er á valdeflingu, sjálfstæð vinnubrögð og að nemendur séu leiðandi gerendur í náminu.
Mikilvægt er að nemendur nái góðum tökum á framburði, bæði á íslensku og á erlendum tungumálum. Aukagreinar í íslensku, alþjóðlegu hljóðkerfi (IPA) og framburði stuðla að því. Unnið er markvisst að því að þjálfa leikrænt og skapandi ferli sögvarans þegar kemur að því að tileinka sér innihald verkefnanna. Við þetta styðja fjölmargar aukagreinar svo sem leiklist og hreyfitímar og þátttaka í fjölbreyttum verkefnum deildarinnar.

TÓNSMÍÐAR

Í hljóðfæratónsmíðum byggir námið á hefðbundnu handverki og þróun þess en nýmiðlaleiðin sprettur upp úr listheimi nútímans þar sem fengist er við raf- og tilraunatónlist og snertifleti flutnings, miðlunar og sköpunar. 

Á tónsmíðabraut eru tvær námsleiðir á bakkalárstigi

  • Hljóðfæratónsmíðar: Þriggja ára 180 eininga BA-nám.  

  • ​Nýmiðlar: Þriggja ára 180 eininga BA-nám.

NÁMSLEIÐIR

Carbon Sketching

LISTNÁMSBRAUT

bottom of page