top of page

ALMENN BÓKMENNTAFRÆÐI

Í almennri bókmenntafræði er veitt yfirlit um þróun bókmennta á Vesturlöndum og að nokkru leyti í öðrum heimshlutum. Nemendur fá þjálfun í að beita fræðilegum aðferðum og hugtökum á margvíslegan skáldskap, menningu og táknheim ólíkra tíma og svæða.
 
Kennslan tekur mið af íslensku jafnt sem alþjóðlegu menningarsamhengi. Grunnnám í almennri bókmenntafræði skilar sér í víðtækri, fjölþjóðlegri menntun sem kemur sér vel í ýmsum störfum í samfélaginu og er jafnframt sterkur grunnur undir framhaldsnám.

ALMENN MÁLVISINDI

Í almennum málvísindum er fjallað um eðli mannlegs máls og sérkenni einstakra tungumála. Undirstöðumenntun í almennum málvísindum getur nýst mjög vel í ýmsu öðru háskólanámi, bæði grunnnámi og framhaldsnámi, auk þess sem hún getur komið sér vel í margs konar störfum.

DANSKA

Í BA-námi í dönsku er lögð áhersla á að nemendur nái hratt og örugglega tökum á dönsku máli í ræðu og riti og öðlist þekkingu á dönsku samfélagi, menningu og bókmenntum. Við Háskóla Íslands er boðið upp á fræðilegt nám til BA-prófs og rannsóknatengt meistaranám.

Einnig er markmiðið: 

  • að undirbúa nemendur undir almenn störf sem krefjast haldgóðrar dönskukunnáttu og fræðilegrar þekkingar á dönsku þjóðlífi og menningu 

  • að veita nemendum fræðilega undirstöðu til að takast á við meistaranám í dönsku við Háskóla Íslands eða erlenda háskóla

ENSKA

Nám í ensku við Háskóla Íslands er fræðilegt yfirlit yfir ensk málvísindi, bókmenntir, menningu og ensku sem heimsmál. Forsenda námsins er að nemendur hafi mjög góða færni í enskri ritun og talmáli.

Hagnýtt gildi
Enska er heimstungumál í alþjóðlegum viðskiptum, vísindum og mennta- og menningarmálum.

Í netvæddu nútímasamfélagi eru fá störf sem ekki krefjast góðrar enskukunnáttu: störf við fjölmiðla, tölvu- og netfyrirtæki, störf á alþjóðavettvangi og í ferðaþjónustu, skrifstofu- og stjórnunarstörf, kennsla, þýðingar o.fl.

GRÍSKA

Menntun í grísku og fornfræði veitir einstaka sýn í menningarsögu Evrópu og tækifæri til frekari rannsókna í hugvísindum. Hvort sem um er að ræða bókmenntasögu og heimspeki, mannkynssögu eða listasögu er menntun í fornfræði undirstöðuþáttur til skilnings á vestrænum menningararfi. Grískunám er hluti af fornfræðinámi. Undirstaða og kjarni fornfræðinnar er klassísk textafræði en fornfræði er einnig þverfagleg fræðigrein sem fæst við allar hliðar fornaldarmenningar Grikkja og Rómverja. Innan greinarinnar rúmast til dæmis sagnfræði, fornleifafræði, bókmenntafræði, heimspeki, listasaga og málvísindi að svo miklu leyti sem þessar greinar fást við fornöldina.

ÍSLENSKA

Í námsgreininni íslensku er fengist við mál og bókmenntir á fjölbreyttan hátt. Fjallað er um íslenskt mál og bókmenntir í samtímanum en jafnframt er sagan rakin og grafist fyrir um rætur íslenskra bókmennta og uppruna íslenskrar tungu. Námið veitir haldgóða almenna menntun og hentar öllum sem hafa áhuga á að starfa á sviði menningar, miðlunar og íslenskra fræða í víðum skilningi. Jafnframt er það mjög góður undirbúningur fyrir margvíslegt framhaldsnám, svo sem í bókmenntafræði, málvísindum, talmeinafræði, fjölmiðlun, útgáfustarfsemi, þýðingum o.fl.

​ÍTALSKA

Nám í ítölsku við HÍ er opið bæði nemendum sem hafa enga kunnáttu í ítölsku svo og fyrir lengra komna.

Markmið ítölskunáms við Háskóla Íslands er að kenna BA-nemum að njóta ítalskrar tungu, sögu, bókmennta, kvikmynda og lista. Nemendur eru þjálfaðir í notkun málsins og öðlast færni til að lesa og skilja bókmenntatexta út frá félagslegu og sögulegu baksviði þeirra.

JAPANSKT MÁL OG MENNING

Japanska er áttunda útbreiddasta tungumál veraldar og hafa tæplega 130 milljónir manna hana að móðurmáli. Kunnátta í japönsku er mikilvæg fyrir pólitísk, menningarleg og efnahagsleg samskipti við Japan. Að loknu tveggja ára námi í japönsku hafa nemendur öðlast grundvallarþekkingu á tungumálinu og eru tilbúnir til framhaldsnáms í japönsku við erlenda háskóla. Til viðbótar við tungumálakennslu er jafnframt veitt yfirsýn yfir sögu Japans, japanskar bókmenntir og japanska kvikmyndalist. Nemendur fá einnig innsýn í japanskt samfélag og menningu þar sem þeir læra m.a. um daglegt líf í Japan, fjölskylduna, stöðu konunnar, menntun, hagkerfið, tónlist af ýmsu tagi, myndasögur, teiknimyndir, siði og venjur.

 

KÍNVERSK FRÆÐI

Kína er fjölmennasta ríki og annað stærsta hagkerfi veraldar sem leika mun leiðandi hlutverk á flestum sviðum mannlífs í heiminum á 21. öldinni. Ástundun kínverskra fræða gerir nemendum kleift að tjá sig á og skilja hversdagslegt mál. Nemendur öðlast einnig haldbæra þekkingu á kínversku ritmáli sem verið hefur í samfelldri mótun í yfir 3000 ár. Loks hefur námið að geyma menningar-, samfélags- og viðskiptatengd námskeið.

 

LATÍNA

Menntun í latínu og fornfræði veitir einstaka sýn í menningarsögu Evrópu og tækifæri til frekari rannsókna í hugvísindum. Hvort sem um er að ræða bókmenntasögu og heimspeki, mannkynssögu eða listasögu er menntun í fornfræði undirstöðuþáttur til skilnings á vestrænum menningararfi. Latínunám er hluti af fornfræðinámi. Undirstaða og kjarni fornfræðinnar er klassísk textafræði en fornfræði er einnig þverfagleg fræðigrein sem fæst við allar hliðar fornaldarmenningar Grikkja og Rómverja. Innan greinarinnar rúmast til dæmis sagnfræði, fornleifafræði, bókmenntafræði, heimspeki, listasaga og málvísindi að svo miklu leyti sem þessar greinar fást við fornöldina.

RÚSSNESKA

Rússneska er eitt af útbreiddustu tungumálum veraldar og hafa um 150 milljónir manna rússnesku að móðurmáli. Kunnátta í rússnesku er mikilvæg fyrir pólitísk, efnahagsleg og ekki síst menningarleg samskipti við Rússland, löndin sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og Austur-Evrópu.

Nám í rússnesku
Nám í rússnesku við Háskóla Íslands er opið nemendum sem ekki hafa kunnáttu í rússnesku fyrir. Námið er í senn hagnýtt og fræðilegt. Annars vegar er um að ræða tungumálanám þar sem nemendur fá kennslu og þjálfun í notkun tungumálsins, talþjálfun, ritun, hlustun og lesskilningi, og hins vegar nám í bókmenntum, menningu, sögu og stjórnmálum Rússlands. Áhersla er lögð á rússneskan samtíma og sögu Sovétríkjanna. Þá er þýðingafræði og þýðingum gerð nokkur skil í seinni hluta námsins.

SPÆNSKA

Í námi til BA-prófs í spænsku öðlast nemendur undirstöðuþekkingu á máli og menningu þeirra landa sem hafa spænsku að þjóðtungu. Nám í spænsku er fjölbreytt og krefjandi. Nemendur kynnast menningu Spánar og Rómönsku Ameríku: Bókmenntum, kvikmyndum, þjóðlífi og hugmyndasögu. Þeir fá þjálfun í rit- og talmáli á fyrstu námsstigum og áhersla er lögð á fræðileg og sjálfstæð vinnubrögð. Einnig fá nemendur innsýn í heim þýðinga og kynnast sögu tungumálsins og þróun.

 

Nemendur eru þjálfaðir í fjórum færniþáttum málsins (tali, ritun, talskilningi og lesskilningi) og þá er þeim jafnframt veitt innsýn í sögu og menningu spænskumælandi landa. Reynt er að gera námið eins lifandi og kostur er og mikil áhersla er lögð á tengsl við viðkomandi málsvæði, t.d. í gegnum fjölmiðla og netið, með samskiptum við erlenda nemendur við HÍ og með námsdvöl erlendis (að jafnaði eftir tveggja ára nám við HÍ).

ÞÝSKA

Um er að ræða einstaklingsmiðað framhaldsnám með sérhæfingu á sviði málvísinda, bókmennta eða þjóðlífs og menningar þýska málsvæðisins sem veitir þjálfun í sjálfstæðum fræðilegum vinnubrögðum. Nemendur taka hluta námsins (alla jafna 40-60 einingar) í námskeiðum við erlenda samstarfsháskóla en skrifa lokaritgerð við Háskóla Íslands. Einnig er unnt að ljúka nokkrum hluta námsins  í námskeiðum við Háskóla Íslands.

 

TÁKNMÁLSFRÆÐI OG TÚLKUN

 Í táknmálsfræði er fyrst og fremst leitast við að kenna nemendum færni í íslensku táknmáli og veita þeim þekkingu á menningarheimi heyrnarlausra. Nemendur fá þjálfun í málnotkun, málfræði táknmálsins og fræðslu um menningu og sögu heyrnarlausra. Áhersla er lögð á íslenska táknmálssamfélagið en í alþjóðlegu samhengi og í samanburði við táknmálssamfélög erlendis. Nemendur fá þjálfun í að beita fræðilegum aðferðum og hugtökum málvísinda og menningarfræða á táknmál og samfélag heyrnarlausra. Jafnframt fá nemendur innsýn í þýðingar og þjálfun í að þýða á milli íslensku og íslenska táknmálsins. Á þriðja námsári er unnið með túlkun á milli íslensku og íslensks táknmáls, bæði fræðilega og við raunverulegar aðstæður. Markmið námsins er að miðla þekkingu á íslensku táknmáli, menningarheimi heyrnarlausra og túlkun á milli íslensks táknmáls og íslensku.

NÁMSLEIÐIR

Student Writing

MÁLABRAUT

bottom of page